Um Flothettu

Flothetta er hönnunarverkefni sem varð til á Íslandi árið 2011 og gengur út á upplifun og nærandi samveru í vatni

Hugmyndasmiður Flothettu er Unnur Valdís Kristjánsdóttir, vöruhönnuður og vatnsmeðferferðaraðili. Flothetta sprettur úr reynsluheimi hennar sem Íslendings sem stundað hefur náttúru- og sundlaugaferðir frá blautu barnsbeini. Þannig samtvinnast áhugi Unnar Valdísar á hönnun og að vinna með heita vatnið til heilsueflingar, slökunar og endurnæringar. Flotbúnaðurinn er hannaður til að veita líkamanum áreynslulausan flotstuðning í vatni, skapa aðstæður fyrir djúpslökun, draga úr verkjum í vöðva og stoðkerfi líkamans. Þetta góða slökunar- og vellíðunarástand sem næst í þyngdarleysi vatnsins gerir okkur kleift að losa um andlega og tilfinningalega streitu og skapa samhljóm, tengingu og jafnvægi.
Síðan Flothetta kom á markað hafa orðið til áhugaverðar og endurnærandi nýjungar í baðmenningu þjóðarinnar. Hönnunin hefur náð að skapa heim upplifanna og nærandi samveru í vatni. Segja má að Flothetta hafi ekki einungis gefið af sér samfélag, heldur einnig menningu.